Herbert Guðmundsson

HERBERT GUDMUNDSSON

Þjóðhátíð 2024

Allir þekkja nafn tónlistarmannsins Herberts Guðmundssonar (Hebba) en honum hefur tekist upp á sitt einsdæmi að halda uppi nánast stöðugum vinsældum eins lags (Can't Walk Away) frá því um miðjan níunda áratug síðustu aldar, lagið er löngu orðið sígilt en hann alltaf jafn duglegur að koma fram í partíum og einkasamkvæmum fólks á öllum aldri til að viðhalda þeim vinsældum. Hann hefur jafnframt sent frá sér ógrynni platna í gegnum tíðina.

Herbert Þorvarður Guðmundsson er Reykvíkingur, fæddur árið 1953 en hann ólst upp í Laugarneshverfinu. Reyndar bjó hann fyrstu ár ævi sinnar í sögufrægu húsi – sjálfum Laugarnesbænum þar sem söngvarinn Sigurður Ólafsson bjó með fjölskyldu sinni á neðri hæðinni en dóttir Sigurðar, söngkonan Þuríður er fáeinum árum eldri en Herbert, Gunnþór bróðir Þuríðar sem einnig er tónlistarmaður er hins vegar nokkuð yngri.

Tónlistarferill Herberts hófst á unglingsárunum, hann mun hafa lært lítillega á gítar og svo síðar aðeins á píanó en að öðru leyti er hann sjálfmenntaður í tónlistinni. Fyrsta hljómsveitin sem hann starfaði með mun hafa verið eins konar skólahljómsveit í Laugarnesskóla en ekki liggur fyrir hvort það var sama sveit og gekk undir nafninu Lost, þetta var um miðjan sjöunda áratuginn – líklega 1965. Undir lok áratugarins var Herbert svo í hljómsveitinni Raflost en í þeirri sveit voru líklega bæði Áskell Másson og Mike Pollock síðar þekktir tónlistarmenn, svo virðist sem það hafi verið fyrsta hljómsveitin sem Herbert söng með en áður hafði hann líklega verið gítarleikari.

Á áttunda áratugnum tók við tímabil þar sem Herbert söng og lék með miklum fjölda hljómsveita á fáeinum árum, veturinn 1969-70 var hann í hljómsveitinni Eilífð og þegar sú sveit söng sitt síðasta tók við skammlíf sveit sem bar nafnið Stofnþel, með þeirri sveit starfaði hann með fram í desember 1970 þegar hann gekk til liðs við Tilveru en sú sveit var nokkuð þekkt og hafði hljóðritað tvær smáskífur. Orðspor Herberts sem söngvari hafði því augljóslega borist tónlistarbransanum til eyrna en Tilvera var hins vegar í tilvistarkreppu og starfaði ekki lengi eftir að Herbert gekk í hana, hann náði þó að syngja með sveitinni á hinni frægu Saltvíkurhátíð sem haldin var uppi á Kjalarnesi um hvítasunnuhelgina 1971. Herbert söng inn á sína fyrstu plötu þá um sumarið með hljómsveitinni en það var tveggja laga skífa (Music judge / Sjálfselska og eigingirni) sem kom reyndar ekki út fyrr en 1972 – og þá í nafni þeirra Axels Einarssonar gítarleikara sveitarinnar og Herberts.

Þegar Tilvera hætti störfum starfaði Herbert um nokkurra vikna skeið með hljómsveitinni Rosie í byrjun árs 1972 áður en sú sveit hætti, en um vorið var hljómsveitin Axis stofnuð. Hún starfaði í nokkra mánuði og afrekaði m.a.s. að fara til Bandaríkjanna en sú ferð mun að mestu hafa verið skemmtiferð, Axis mun þó hafa leikið eitthvað í þeirri reisu en gítarleikari sveitarinnar var Ameríkani.

Old Days


Herbert var enn ekki orðinn tvítugur en hafði þarna leikið með mörgum skammlífum hljómsveitum. Í upphafi árs 1973 var hann meðal leikara í söngleiknum Súperstar sem Leikfélag Reykjavíkur setti á svið í Austurbæjarbíói og um vorið var ný hljómsveit stofnuð, Ástarkveðja – í þeirri sveit voru Ómar Óskarsson gítarleikari, Ásgeir Óskarsson trymbill og Jón Ólafsson bassaleikari og hófu þeir félagar að vinna með frumsamið efni eftir Ómar. Um sumarið stofnuðu þeir Pétur Kristjánsson og Gunnar Hermannsson úr Svanfríði nýja sveit sem þeir kölluðu Pelican, og fengu þá Ómar og Ásgeir með sér í þá sveit svo Ástarkveðja hætti í kjölfarið – síðar gekk Jón bassaleikari einnig í þá sveit, og héldu þeir áfram að vinna með efni Ómars undir Pelican nafninu. Herbert stofnaði hins vegar ásamt fleirum hljómsveitina Sunshine / Sólskin sem hóf að flytja frumsamið efni eftir hann sjálfan, sveitin hljóðritaði tvö lög (annað eftir Herbert) sem rataði síðar á safnplötuna Hrif sem kom út um haustið en hljómsveitin var þá hætt.

Enn urðu vendingar í hljómsveitabrölti Herberts þegar hann gekk til liðs við hljómsveitina Eik en sú sveit hafði starfað um tíma við góðan orðstír. Þarna fann Herbert loks fjölina sína, hann var nú farinn að koma eigin efni á framfæri og allt gekk vel en um vorið 1975 varð sprenging í íslensku tónlistarlífi sem lengi var talað um – Pétur Kristjánsson stofnandi og söngvari Pelican sem fyrr var getið var rekinn úr sveitinni. Í kjölfarið fór af stað rás atburða þar sem yfirlýsingar og ásakanir gengu milli manna í fjölmiðlum, Pétur stofnaði í flýti nýja sveit, Paradís til að keppa við fyrrum liðsfélaga sína sem leituðu eftir fulltingi Herberts í Eik til að fylla skarð Péturs, enda hafði Hebbi þá þegar starfað með lunganum úr sveitinni undir nafninu Ástarkveðja ári fyrr. Þarna þurfti að hafa hraðar hendur því Pelican var á þessum tíma vinsælasta hljómsveit landsins og hafði gefið út hina geysivinsælu plötu Uppteknir og hafði auk þess þess hljóðritað nýja plötu – Litla flugu sem var tilbúin til útgáfu. Pétur hafði hins vegar miklu persónufylgi að fagna og náði að snúa almenningsálitinu sér í hag þannig að Pelican var í afar erfiðri stöðu, hin nýja Paradís tók einnig nokkuð af þeim dansleikjum sem Pelican hafði bókað sig á en Pétur hafði verið umboðsmaður beggja sveitanna. Við þessar kringumstæður yfirgaf Herbert Eikina og gekk til liðs við Pelican en sá í raun aldrei til sólar sökum þess sem á undan hafði gengið, Pétur hafði hlotið alla samúð almennings og Pelican bar sitt barr aldrei eftir það. Herbert söng með sveitinni um sumarið en hætti svo um haustið en Pelican-liðarnir reyndu áfram að starfrækja sveitina.

Herbert stofnaði í kjölfarið nýja sveit, hún bar nafnið Dínamít og starfaði í nokkra mánuði eða fram undir mitt ár 1976, tíðar mannabreytingar í sveitinni urðu til þess að aldrei náðist að koma frumsömdu efni á plast en sveitin var undir fönkáhrifum, ekki ósvipað þeirri tónlist sem Eik hafði verið að spila en Pelican var meira í rokkgírnum. Hér hafði Herbert líklega fengið nóg af hljómsveitabransanum enda hafði hann þarna um sumarið 1976 starfað með tíu hljómsveitum síðan um áramótin 1969-70. Hann dró sig því í hlé og ætlaði að einbeita sér að frumsömdu efni í því skyni að gefa síðar út sólóplötu þar sem efnið yrði eftir hann og Mike Pollock.

þjóðhátíð

Nokkur bið varð á því að sólóplatan kæmi út, hún var hljóðrituð vorið 1977 en leit loksins dagsins ljós fljótlega eftir áramótin 1977-78, upphaflega hafði staðið til að platan sem hlaut nafnið Á ströndinni kæmi út fyrir jólin en þar sem upplagið barst svo seint til landsins var beðið fram yfir áramótin. Á plötunni voru meðspilarar Herberts fyrrum félagar hans úr hljómsveitinni Eik auk nokkurra viðbótar hljóðfæraleikara en þeir Eikar-liðar höfðu um svipað leyti hljóðritað plötu sína Hríslan og straumurinn. Á ströndinni fékk afar misjafna dóma, hún hlaut t.a.m. ágæta dóma í Morgunblaðinu, sæmilega í Dagblaðinu en fremur slaka í Alþýðublaðinu, engar spurnir fara af sölu plötunnar en Fálkinn var útgefandi hennar. Platan var tólf laga og samdi Herbert sjálfur megnið af lögunum en Hilmar Örn Hilmarsson (síðar tónlistarmaður og allsherjargoði) samdi flesta textana, hann var þá aðeins tæplega tvítugur að aldri, Mike Pollock kom einnig að laga- og textasmíðum.

Herbert dró sig í hlé eftir útgáfu plötunnar, hann fluttist til Vestmannaeyja og var á sjó þar næstu tvö árin, var m.a. kokkur á loðnubát en var einnig að sigla með fisk til Portúgal. Um það leyti komst hann í kast við lögin þegar hann freistaðist til að smygla pakka með kannabisefnum en var hirtur og hlaut nokurra mánaða dóm, sú saga er fræg að hann hafi samið lagið Can't Walk Away meðan hann sat í gæsluvarðhaldi í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg enda kemur þar fyrir hendingin „locked in jail“.

Segja má að fljótlega hafi Herbert verið flestum gleymdur í tónlistinni, hann skildi við eiginkonu sína í kringum 1980 en þegar honum bauðst að flytja vestur til Bolungarvíkur haustið 1981 og ganga til liðs við hljómsveitina Kan sem þar starfaði sló hann til og fluttist vestur. Þar kom hann undir sig fótunum á nýjan leik, hóf að syngja og leika á gítar með sveitinni og starfa í frystihúsinu, Kan lék víða um Vestfirði en með tímanum urðu mannabreytingar í sveitinni og að lokum var aðeins einn Bolvíkingur eftir í henni – sveitin flutti því eiginlega búferlum til höfuðborgarsvæðisins, gerði út þaðan og hljóðritaði svo átta laga plötuna Í ræktinni sem kom út haustið 1984. Sú plata gekk ágætlega í landann en tvö laga hennar nutu nokkurra vinsælda, titillagið Ertu í ræktinni og Megi sá draumur, lögin tvö komu Hebba aftur fram á sjónarsviðið og komu Bolungarvík um leið á tónlistarkortið.

Flakkað um Ferilinn

Reyndar tók Herbert létt hliðarspor á Kan því hann kom fram á Melarokkstónleikunum sumarið 1982 með hljómsveit sem kallaði sig Bandóðir, sú sveit mun hafa leikið pönkskotið rokk enda skipuð meðlimum úr Utangarðsmönnum og Purrki pillnikk auk Herberts, þ.á.m. margnefndum Mike Pollock. Um það leyti bárust fregnir að því að hann væri farinn að vinna frumsamið efni sem ætti að koma út á sólóplötu en nokkur bið varð þó á að eitthvað markvert gerðist þar, reyndar munu grunnar nokkurra laganna hafa verið hljóðritaðir um það leyti.

Herbert vann áfram að plötunni og hún var hljóðrituð haustið 1984, lögin voru eftir Herbert sjálfan sem fyrr er nefnt sem og textar en Mike Pollock kom einnig lítillega að þeim. Lífið hafði tekið U-beygju hjá honum en hann hafði um þetta leyti tekið búddatrú sem kom mörgum fjölmiðlamanninum spánskt fyrir sjónir í fjölmörgum viðtölum sem tekin voru við hann þegar platan kom svo loksins út um haustið 1985. Skífan hafði hlotið titilinn Dawn of the human revolution og er tímamótaverk í íslenskri popptónlistarsögu því hún er líklega fyrsta og jafnframt eina hreinræktaða „eighties“ sólóplatan sem gefin var út hérlendis á ensku en Herbert hafði fengið til liðs við sig bræðurna Steingrím og Ingvar Einarssyni sem voru áhugamenn um hljóðgervla og tölvuvinnslu í tónlist og skópu það nýrómantíska synthasánd sem er á plötunni. Reyndar var platan tvískipt hvað þetta varðaði, fyrri plötuhliðin hafði að geyma fyrrnefnt synthapopp en sú síðari var nokkuð rokkaðri. Fjölmargir aðrir tónlistarmenn lögðu hönd á plóginn s.s. Sigurður Rúnar Jónsson (eigandi Stúdíó Stemmu þar sem platan var hljóðrituð), Stuðmaðurinn Jakob Frímann Magnússon og Jón Ólafsson bassaleikari fyrrum félagi Herberts úr Pelican og fleiri sveitum, þá voru þarna einnig yngri tónlistarmenn af pönk-kynslóðinni eins og Ásgeir Bragason, Mike Pollock og Rúnar Erlingsson auk fjölda annarra svo flóra tónlistarfólks af ýmsu sauðahúsi kom að gerð plötunnar – þess má einnig geta að snerilslög Charlie Watts eru notuð í nokkrum lögum plötunnar. Enn fremur annaðist Geoff Calver hljóðblöndun og fékk platan því svolítið „erlent“ yfirbragð og þótti sánda vel.

Herbert hafði kynnt nokkuð undir um vorið og sumarið með því að koma fram á skemmtistöðum höfuðborgarsvæðisins en einnig kom hann eitthvað fram með Stuðmönnum á balltúr sveitarinnar um landsbyggðina. Það fór enda svo að landsmenn voru meira en tilbúnir fyrir Herbert í þetta sinnið og lagið Can't Walk Away, upphafslag plötunnar sem hann hafði samið í gæsluvarðhaldinu forðum varð að stórsmelli jólavertíðarinnar 1985. Myndband var einnig gert við lagið sem aukinheldur sló í gegn þegar það var sýnt í Skonrokki í Ríkissjónvarpinu og lagið fór jafnframt mikinn á Vinsældarlista Rásar 2, komst á toppinn eftir fáeinar vikur á listanum og skaut þar lögum eins og I‘m your man með Wham og Nikita með Elton John aftur fyrir sig. Um leið varð hann fyrstur íslenskra söngvara (einstaklinga) til að ná toppsætinu á listanum. Dawn of the human revolution seldist einnig vel eða í um 5000 eintökum sem þótti þá gott enda veitti Herbert ekki af því hann gaf plötuna sjálfur út undir útgáfumerkinu Bjartsýni og hafði lagt aleiguna undir. Reyndar voru einhverjar tilraunir gerðar með að dreifa plötunni erlendis og Can't Walk Away afrekaði að komast á norska vinsældalistann – náði þar líklega hæst í 13. sæti. Lagið varð næst vinsælasta lag ársins á Rás 2 árið 1985 þrátt fyrir að koma út síðla árs, og það var einnig kosið lag ársins af lesendum barnablaðsins Æskunnar. Lagið hefur síðan þá ratað inn á fjölmargar safnplötur og hefur fyrir löngu orðið sígilt í íslenskri tónlistarsögu – sögu lagsins var þarna þó hvergi nærri lokið.

Herbert og Guðmundur Herbertsson

Íslenska „eighties-ið“ náði líklega hátindi sínum þarna um jólin 1985 því að Rikshaw gaf um svipað leyti út fjögurra laga skífu sína með lögum eins og Into the burning moon og Great wall of China en saman mynda plöturna tvær hápunktinn á hinni agnarsmáu íslensku nýrómantísku bylgju. Plata Herberts hlaut prýðilega dóma í DV, Morgunblaðinu og Helgarpóstinum og einnig þokkalega í NT og Sjómannablaðinu Víkingi.

Herbert fylgdi plötunni eftir af fullum þunga um haustið og jólin, kom mikið fram í félagsmiðstöðvum unglinga á höfuðborgarsvæðinu og skemmti svo ásamt Stuðmönnum og fleirum á stóru áramótaballi unglinga í Laugardalshöllinni. Hann var einnig meðal flytjenda í Hjálparsveitinni sem flutti og gaf út lagið Hjálpum þeim, til styrktar Hjálparstofnunar kirkjunnar en það lag átti eftir að hirða toppsætið á vinsældarlista Rásar 2 og sitja þar sem fastast um jólin. Annað lag af plötu Herberts, After the storm komst einnig inn á vinsældarlistann.

Herbert sem hafði lítið látið á sér bera árin á undan í tónlistinni nýtti sér meðbyrinn og fljótlega á nýju ári, jafnvel full snemma að sumra mati, sendi hann frá sér fjögurra laga smáskífu (tólf tommu) undir nafninu Transmit. Plötuna vann hann með Steingrími þeim hinum sama og hafði verið með honum við gerð Dawn of the human revolution en nýja platan gekk þó ekki eins vel og breiðskífan, lagið Won‘t forget komst inn á topp tíu vinsældarlistans en skífan hlaut fremur slaka dóma í Helgarpóstinum og Æskunni en þó ágæta í DV. Á henni voru tvö ný lög – áðurnefnt Won‘t forget og titillagið Transmit en einnig voru þar Tonight og Can't Walk Away af breiðskífunni.

Herbert hélt sínu striki og var á fullu á skemmtistöðum borgarinnar við að kynna efni sitt en einnig stílaði hann heilmikið á skólana og félagsmiðstöðvarnar, þá kom hann fram í þætti Jóns Gústafssonar í Ríkissjónvarpinu – Rokkarnir geta ekki þagnað, um vorið. Um sumarið kom hann einnig fram á Rokkhátíð í Háskólabíói ásamt fleirum og um verslunarmannahelgina skemmti hann á Laugum í Reykjadal. Hann var hvergi nærri hættur og um haustið 1986 sendi hann frá sér nýja breiðskífu og hafði hann þá á einu ári gefið út tvær breiðskífur og eina smáskífu. Nýja platan bar heitið Time flies og var gefin út af Skífunni en plötuna vann hann með Steingrími sem fyrr en félagi hans úr Kan, Magnús Hávarðarson samdi um helming laganna og Steingrímur nokkur líka. Platan fékk varla nema sæmilega dóma í Þjóðviljanum en góða í DV en tónlistin var líkari því sem var að finna á fyrri hlið fyrri breiðskífunnar – þ.e. synthapopp. Platan kom út í tveimur útgáfum, annars vegar hefðbundnum svörtum vínyl en einnig á dökkgrænum vínyl.

Skemmtun

Herbert hafði fleiri verkefni á sinni könnu þetta árið því hann hélt utan um útgáfu á safnplötu sem bar heitið Vímulaus æska eftir samnefndum foreldrasamtökum sem gáfu plötuna út, sjálfur átti Herbert eitt lag á plötunni (Treystu á sjálfan þig) en plötunnar hefur helst verið minnst fyrir að á henni er að heyra fyrsta framlag hljómsveitarinnar Síðan skein sól, á plötu. Fyrir jólin 1987 átti Herbert einnig jólalag (Jólastemming í miðbænum) á safnplötunni Smellir.

Nú fór í hönd tímabil þar sem Herbert lét lítið fyrir sér fara í tónlistinni, hljómsveitin Kan starfaði til 1989 og söng Hebbi með sveitinni en þeir félagar munu hafa starfrækt hljóðver um tíma, hljómsveitin átti lag á safnplötunni Vestan vindar sem útgáfufyrirtæki Herberts, Bjartsýni gaf út en Herbert hafði einmitt gefið út Dawn of the human revolution undir því útgáfumerki.

Herbert hafði fljótlega eftir útgáfu síðari breiðskífu sinnar byrjað að fara um landið sem sölumaður, mestmegnis bóka og næstu árin einbeitti hann sér að því verkefni, og varð reyndar mjög þekktur sem slíkur – hann náði því góðu sambandi við fólkið á landsbyggðinni, seldi þeim einnig eigin plötur og geisladiska og þau sambönd átti hann eftir að nýta sér næstu áratugina. Hann var vinsæll í þessu starfi sínu og varð m.a.s. þekktur fyrir að taka lagið og jafnvel að elda mat fyrir gestgjafa sína en hann hafði einmitt verið kokkur þegar hann var á sjónum.

Lítið bar á Herberti þar til haustið 1992 að hann stofnaði hljómsveitina Herbertstrasse sem var skipuð nokkrum gamalreyndum köppum úr bransanum, sveitin starfaði reyndar stutt – aðeins í fáeina mánuði en spilaði á öldurhúsum höfuðborgarsvæðisins. Um það leyti var hann jafnframt farinn að huga að næstu plötu sinni, hún kom út haustið 1993, var ellefu laga og bar nafnið Being human. Með honum á plötunni voru nokkrir þekktir tónlistarmenn og hljóðgervlarnir höfðu að mestu vikið úr tónlistinni sem hafði hins vegar nokkurn soul- og gospelkeim, Herbert samdi sjálfur drjúgan hluta laganna en leitaði einnig til lagahöfunda eins og Jóhanns G. Jóhanssonar, Magnúsar Þórs Sigmundssonar og Jóhanns Helgasonar, þarna er m.a. að finna lagið Our love is real eftir Magnús Þór sem hafði keppt í undankeppni Eurovision 1990 undir nafninu Sú ást er heit, en öll lög plötunnar voru á ensku enda hafði Herbert hug á að stefna á erlendan markað rétt eins og Björk Guðmundsdóttir sem um þetta leyti var að öðlast alþjóðlega frægð. Áhersla var lögð á lagið Hollywood og fór Herbert vestur um haf til Los Angeles til að taka upp myndband við það lag, það lag naut einnar mestrar hylli af plötunni en alþjóðafrægðin lét ekki kræla á sér. Being human hlaut ágæta dóma í DV en slakari í Pressunni og Morgunblaðinu.

Herbert fylgdi plötunni eitthvað eftir með tónleikahaldi en flutti svo til Svíþjóðar síðsumars 1994 þar sem hann átti eftir að dveljast meira og minna næstu þrjú árin á eftir. Þar rak hann bæði ísbúð og kaffihús en meðan hann bjó þar var gamli slagarinn Can't Walk Away að ganga í endurnýjun lífdaga á útvarpsstöðinni FM 957, þar hafði orðið eins konar „eighties“ vakning og þegar útvarpsmaður hringdi í Herbert til Svíþjóðar árið 1996 kom hann af fjöllum enda vissi hann ekkert að því að lagið væri orðið vinsælt á nýjan leik. Það varð því úr að Hebbi kom heim til Íslands í nokkur skipti meðan hann bjó erlendis, til að sinna þessum nýju og óvæntum vinsældum landsins með því að troða upp á framhaldsskólaskemmtunum og þar með lagði hann drög að hefð sem enn ríkir meðal skólanna að bóka hann í „eitís-vikum“, menntaskólaböllum og partíum en hann hefur í gegnum tíðina heimsótt langflesta framhaldsskóla landsins og flesta margsinnis. Í kjölfarið var platan Dawn of the human revolution endurútgefin um haustið 1996 en Can't Walk Away var þá í fyrsta sinn aðgengilegt á geisladiski. Aðdáendaklúbbar voru jafnframt stofnaðir meðal menntaskólanema og einhverjir þeirra eru reyndar ennþá starfandi, stærstur þeirra var HG-klúbburinn svokallaði sem innhélt nokkur hundruð manns þegar mest var. Aðdáendaklúbbar Herberts Guðmundssonar voru að einhverju leyti eins konar grín á hans kostnað rétt eins og uppákomur þær sem hann var bókaður á meðal menntaskólanema, en hann hefur alla tíð tekið þátt í því og hefur þénað í gegnum tíðina þénað háar upphæðir fyrir viðvikið – og þá má spyrja hver sé að hafa hvern að skotspæni.

80's

Ári síðar, haustið 1997 fluttist Herbert aftur heim til Íslands ásamt fjölskyldu sinni og hélt áfram að gera út á þennan gamla stórsmell, sem hann hefur gert síðan en hann er enn eftirsóttur skemmtikraftur í partí af öllu tagi, afmælisveislur, vinnustaðapartí, árshátíðir, brúðkaup og svo auðvitað menntaskólaskemmtanir þar sem hann flytur Can't Walk Away í nokkrum mismunandi útgáfum, og önnur lög sín í bland. Herbert tróð einnig nokkuð upp með hljómsveitinni Hunang en það hafði hann einnig gert þegar hann kom hingað í heimsóknir frá Svíþjóð.

Árið 1998 sendi Herbert frá sér sína sjöttu plötu, hún hlaut nafnið Faith og hafði að geyma blöndu af nýjum lögum og eldri, lagið I believe in love var eitt fimm nýrra laga og naut mikilla vinsælda, það komst inn á Íslenska listann en á plötunni var einnig að finna margnefnt Can't Walk Away í þremur mismunandi útgáfum.

Hlutirnir voru að mestu í föstum skorðum næstu árin, Herbert hélt áfram að gera út á menntaskólanema og þess konar skemmtanir samhliða störfum sínum sem bókasölumaður en hann var þar einnig í kjörstöðu til að selja eigin afurðir sínar – þ.e. plöturnar. Um skeið starfaði hann með Þóri Úlfarssyni hljómborðsleikara þar sem þeir skemmtu saman tveir en þar mun Herbert einnig hafa verið vopnaður kassagítar auk þess að syngja, Þórir var Herberti innan handar við næstu plötu og stjórnaði þar upptökum ásamt því að útsetja.

Herbert sendi frá sér lag á safnplötunni Lagasafnið 7 árið 1999 en næst kom frá honum nýtt efni sumarið 2001 þegar hann gaf út plötuna Ný spor á íslenskri tungu, eins og titill hennar gefur til kynna var um að ræða tónlist á íslensku – fyrsta plata Herberts á íslensku síðan fyrsta plata hans – Á ströndinni, kom út. Á plötunni náði lagið Svaraðu heilmiklum vinsældum, kom einnig út á safnplötunni Svona er sumarið 2001 og er meðal vinsælustu laga hans, lagið er í þremur útgáfum á plötunni. Flest laganna voru eftir Herbert sjálfan en þar var einnig að finna þrjú portúgölsk lög (með íslenskum texta) og fór hann gagngert til Portúgal til að taka upp myndbönd þar. Ný spor fékk þokkalega dóma í DV og Morgunblaðinu. Plötunni var fylgt úr hlaði með stórum útgáfutónleikum í Íslensku óperunni þar sem þrettán manna hljómsveit lék með honum, þeir tónleikar voru hljóðritaðir og gefnir síðar út.

Herbert hafði hægt um sig á útgáfusviðinu næstu árin enda var feikinóg að gera hjá honum í að koma fram og syngja Can't Walk Away, hann var ekki áberandi í auglýsingum fjölmiðla enda var hann mikið í einkasamkvæmum og menntaskólapartíum. Hann kom einnig fram á þematengdum skemmtunum og dansleikjum eins og „eighties“ böllum á Players í Kópvogi og Sjallanum á Akureyri ásamt fleirum (2003) svo dæmi séu nefnd, og svo var hann t.a.m. gestur í sjónvarpsþættinum Af fingrum fram hjá Jóni Ólafssyni. Um tíma kom hann fram með Stuðbandalaginu og svo kom að því hljómsveitin Kan kom saman á nýjan leik en sú sveit skemmti á Aldrei fór ég suður, um páskana 2006. Hann hafði einnig sett á fót nýja ísbúð sumarið 2002 og hafði mikið að gera þar auk starfa sinna sem bóksali.

Allt á Uppleið

Árið 2007 urðu þau tímamót í lífi Herberts að hann sneri baki við búddismanum og frelsaðist, og á sama tíma fór hann í meðferð en hann hafði átt í vandræðum með fíkn sína um nokkurra ára skeið. Í kjölfarið varð hann virkur í trúarlegu starfi og fór jafnframt að koma fram í messum og öðrum kristilegum samkomum samhliða öðrum tónlistarframkomum. Ári síðar sendi hann frá sér plötuna Spegill sálarinnar (Open your eyes) en hún var með kristilegu gospelívafi og meðal annarra kom Gospelkór Fíladelfíu fram á henni en útgáfutónleikarnir voru einmitt haldnir í Fíladelfíu. Sonur Herberts – Svanur Herbertsson var einnig meðal flytjenda á plötunni, lék þar á píanó en þeir feðgar höfðu verið farnir að vinna saman í tónlistinni nokkru fyrr. Síðar átti annars sonur Herberts, Guðmundur einnig eftir að starfa með föður sínum í tónlistinni. Spegill sálarinnar hlaut ágæta dóma í Morgunblaðinu en fremur slaka í tímaritinu Monitor.

Can't Walk Away var síður en svo gleymt, Herbert sá til þess að sá smellur gengi kynslóð fram af kynslóð með því að flytja það í hinum ýmsu útgáfum í partíum, skemmtistöðum og framhaldskólauppákomum eins og margoft hefur komið fram, árið 2009 kom svo út plata undir titlinum Can't Walk Away [Party zone remix] en á henni var búið að safna saman átján mismunandi endurhljóðblönduðum útgáfum af laginu. Haustið 2010 kom svo út DVD-diskurinn Herbert Guðmundsson í Íslensku óperunni – upptökur frá útgáfutónleikunum árið 2001.

Samstarf þeirra feðga Herberts og Svans hafði staðið um skeið og sumarið 2010 höfðu þeir sent frá sér lagið Time saman sem vakti töluverða athygli, Svanur hafði þá nýverið verið kjörinn besti söngvari Músíktilrauna þar sem hann söng með hljómsveitinni Feeling blue, nokkru síðar gáfu þeir út lagið Treasure hunt og tvær smáskífur í viðbót komu út áður en breiðskífa með feðgunum kom út haustið 2011 þar sem þeir kölluðu sig Herbertson en platan bar nafnið Tree of life. Platan sem var tólf laga hlaut ágæta dóma í Morgunblaðinu, Fréttablaðinu og Fréttatímanum. Þeir Herbertson-feðgar héldu til vesturstrandar Bandaríkjanna um svipað leyti og héldu tónleika þar í nokkrum kirkjum.

Herbert var um þetta leyti hættur að selja bækur, líf hans hafði enn tekið nokkrum stakkaskiptum um þetta leyti, hann hafði átt í skærum og dómsmálum við húsfélagið við raðhúsalengju þar sem hann bjó þar sem honum hafði verið gert að taka þátt í kostnaði við þakviðgerðir sem komu honum í raun ekki við – þeim skærum lauk með því að hann varð gerður gjaldþrota árið 2012.

Þeir Herbert og Svanur störfuðu áfram saman við að gera tónlist og árið 2012 áttu þeir lagið Eilíf ást í undankeppni Eurovision keppninnar en þetta var í fyrsta sinn sem Herbert kom að þeirri sönglagakeppni. Lagið komst ekki áfram í keppninni en það var þó að finna á plötunni Nýtt upphaf sem Herbert gaf út síðar það sama ár en það var tíunda breiðskífa hans. Flest laganna voru af erlendum uppruna en einnig voru þarna lög eftir Herbert sjálfan sem og Svan og Þóri Úlfarsson sem vann plötuna með honum, textarnir komu úr ýmsum áttum en Friðrik Sturluson átti flesta þeirra. Platan hlaut þokkalega dóma í Morgunblaðinu. Ári síðar kom enn ein platan út, að þessu sinni var um að ræða tvöfalda plötu, geisla- og dvd-disk með tónlist og myndböndum í tilefni af 60 ára afmælis Herberts og 40 ára söngafmælis hans. Um það leyti var verið á fullu við að gera heimildarmynd um Herbert en hún hafði þá verið í vinnslu um nokkurt skeið og enn var heilmikil vinna eftir þegar hér var komið sögu.

Herbert hélt enn sínu striki og söng áfram á smærri uppákomum tengt framhaldsskóladansleikum og -partíum auk þess að koma fram í afmælisveislum, starfsmannapartíum og öðrum einkasamkvæmum en einnig á árshátíðum og stærri samkomum, þá fóru þeir Herbert, Guðmundur sonur hans og Hjörtur Howser í tónleikaferð um landsbyggðina snemma árs 2015 en það var í fyrsta sinn sem Herbert fór í slíka reisu sem sólólistamaður, hann hafði þó farið í slíkar ferðir með hljómsveitum sínum á áttunda áratugnum. Reyndar riðlaðist túrinn heilmikið vegna veðurs og varð minna úr en upphaflega stóð til. Herbert kom einnig fram á tónlistarhátíðinni Heima í Hafnarfirði vorið 2015 og fleiri tónleikum, og söng jafnframt heilmikið í kirkjum höfuðborgarsvæðisins. Hebbi varð m.a.s. svo frægur að troða upp í Frakklandi í mikilli stemmingu Íslendinga sem þar voru á ferð í tengslum við Evrópumótið í knattspyrnu sumarið 2016.

Útgáfubransinn var um þetta leyti að breytast mikið og tónlistarútgáfa að færast smám saman úr efnislegu formi yfir á hið stafræna Internet, á tónlistarveiturnar. Útgáfumynstrið var því einnig að taka breytingum hjá Herbert en hann hélt áfram að vinna tónlist með Svani syni sínum og Hirti Howser þar sem hann sendi frá sér smáskífur en ekki endilega með heila plötu í huga. Þannig gaf hann út þrjár slíkar smáskífur á netinu árið 2015, You came to me, Í þér býr það besta, sem varð nokkuð vinsælt og Þú komst (Kærleikurinn umbert allt). Árið 2016 kom enn ein slík skífa út – Let the sunshine in, og þá um haustið var heimildarmyndin loks frumsýnd en hún hafði hlotið nafnið Herbert Guðmundsson – Can't Walk Away: Vandamálin eru eldiviður framfaranna, og var unnin af Friðriki Grétarssyni og Ómari Sverrissyni kvikmyndagerðarmönnum en vinnsla myndarinnar hafði þá tekið um fimm ár. Myndin hlaut ágætar viðtökur og þar var ekkert dregið undan en Herbert hafði sjálfur skrifað undir samning þess efnis að hann sæi myndina ekki fyrr en á frumsýningu.

Herbert var áfram afkastamikill og hélt áfram að senda frá sér smáskífur árið 2017 í samstarfi við Svan, Trúir þú því, Til var sú stund og Starbright litu allar dagsins ljós sem og níu laga breiðskífa sem einnig bar titilinn Starbright. Þessar skífur vöktu enga sérstaka athygli né heldur þær tvær smáskífur sem komu út 2018 og 19, Driving wild country og Only love (Berndsen mix). Hann var þarna einnig í samstarfi við aðra tónlistarmenn, samdi t.d. fyrir kántrísöngvarann Axel Ó. og söng á sólóplötu Leós R. Ólasonar auk þess að koma fram með hinum og þessum s.s. hljómsveitinni Babies, Ingvari Valgeirssyni o.fl.

Herbert hafði haft nóg að gera við að koma fram en þegar Covid-heimsfaraldurinn skall á með fullum þunga hættu tekjurnar að koma inn, m.a. hafði hann þá verið bókaður á þrjú þorrablót sem svo var aflýst. Honum var hins vegar bent á að notfæra sér nafn sitt á annan hátt, að selja varning – fatnað, sem og hann gerði. Í kjölfarið setti hann á fót fatalínu og hóf að selja þann varning á vefsíðunni herbert.is., þar er einnig hægt að kaupa tónlist Herberts. Þrátt fyrir heimsfaraldur gat Herbert enn unnið tónlist enda var það hægðarleikur einn í gegnum netið, og enn streymdu frá honum smáskífurnar. Árið 2020 kom Lífið út og ári síðar voru það Love life og svo stórsmellurinn Með stjörnunum sem varð feikivinsælt og hlaut heilmikla spilun í útvarpi.

Þegar Covid-hörmungunum var loks lokið gat Herbert á nýjan leik farið að troða upp á nýjan leik, snemma árs 2022 var hann einn af gestum Helga Björns í sjónvarpsþættinum Heima með Helga og um sumarið skemmti hann í fyrsta sinn á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum þar sem hann söng við undirleik hljómsveitarinnar Albatross, skömmu síðar á Heima-hátíðinni á Akranesi og svo fyrir jólin á tónleikum með Baggalúti og Julevenner Emmsjé Gauta. Og ekkert lát varð nú á útgáfum smáskífna bæði á íslensku og ensku, Call your name, I follow you, Miklu meira og Hvert sem ég fer komu allar út árið 2022 og árið 2023 bættust við (If paradise is) Half as nice, Ólgandi augu þín, Ástarbál og Þú veist það nú en síðast töldu skífuna vann hann með „eighties-sveitinni“ Hr. Eydís.

Um áramótin 2023-24 urðu enn stór tímamót hjá Herberti en hann hafði þá gert upp öll sín mál eftir gjaldþrotið og var orðinn skuldlaus maður. Í kjölfarið var blásið til afmælistónleika í Háskólabíói vorið 2024 í tilefni af sjötugs afmæli hans árið 2023, undir yfirskriftinni Flakkað um ferilinn en þar var hann með stóra hljómsveit og stórkanónur í söng- og raddhlutverkum. Herbert er því ennþá í fullu fjöri og virðist ekkert slá af, hvorki í tónleikahaldi né útgáfu á efni.

Saga Herberts Guðmundssonar er mjög merkileg og e.t.v. mætti segja að þrautseigja einkenni tónlistarferil hans. Framan af starfaði hann með fjölda hljómsveita sem nokkrar voru meðal þekktustu og vinsælustu hljómsveita landsins – en þó ekki á þeim tíma sem hann starfaði með þeim. Það var ekki fyrr en hann fór á eigin verðleikum í bransann sem sólólistamaður að eitthvað fór að gerast, og lagið Can‘t Walk Away er löngu orðið ódauðlegt – það er e.t.v. merkilegast við það lag er hversu duglegur Herbert hefur verið að halda því á lífi með stöðugri vinnu við að mata yngri kynslóðir á því. Margir átta sig hreinlega ekki á því að mörg annarra laga hans hafa gert ágæta hluti fyrir hann tekjulega séð þótt það verði aldrei í líkingu við Can't Walk Away.